Þann 1.ágúst 2019 afhentum við húsið okkar nýjum eigendum, fluttum allt dótið okkar sem var ekki selt í geymslu og okkur til mömmu í nokkra daga, því ferðalagið var að fara að byrja. Fyrsti áfangastaður var London. Eftir margar erfiðar kveðjustundir, smá tár og extra þétt knús var haldið af stað kl 04:00 á laugardagsmorguninn 3.ágúst, með ekkert nema bakpoka og góða skapið, því við erum jú á leiðinni í 12 mánaða heimsreisu, þar sem við ætlum að skemmta okkur og skoða hvað heimurinn hefur upp á að bjóða. Helst myndum við vilja skoða ALLT, en við þurfum að velja og hafna. Hér fyrir neðan kemur fyrsta ferðasagan (þó fyrr hefði verið) og það er okkar von að þið hafið gaman af að fylgjast með okkur á ferðinni. Við erum með bloggið, instagram, snap og facebook, þannig að það ætti ekki að fara framhjá neinum hvar við erum og hvað við erum að gera.
Að sjálfsögðu erum við gengin upp að hnjám, eins og góðum túristum sæmir, búin að ganga opin mynnt og stóreygð að sjá allt það fínasta og flottasta í London.

Teboð með hennar hátign
Matthíasi Kára hlakkaði mikið til að koma til borgarinnar og fá loksins að sjá Big Ben með eigin augum, en þegar við komum uppfrá Westminster lestarstöðinni blasti við okkur, jú Big Ben í allri sinni dýrð, en hann var klæddur í viðgerðar stillasa frá toppi til táar, vonbrigðin voru dálítil, en ekkert sem var ekki hægt að tækla. Við vorum líka svo heppin að geta labbað úta á götu vegna reiðhjólakeppni, þannig að leiðin var greið framhjá og áfram var þrammað í átt að Trafalgar Square, þar sem meðal annars er gengið fram hjá Downing stræti 10, sem er nýbúið er að skipta um íbúa, gæslan mikil við götuna, en hann Boris var því miður of upptekinn til að fá okkur í kaffi.
Þegar við gengum inn á Trafalgar torg urðu börnin mjög upprifin og stefnan strax sett á að finna McDonalds svo hægt væri að næra sig til að hafa næga orku í að klifra á stóru, stóru ljónunum sem eru í kringum minnisvarðann á torginu. Þegar „næringin“ var komin í kroppana héldum við áfram að torginu þar sem allt iðaði af lífi og þar mátti meðal annars sjá pikachu, Yoda og fimleikastráka hoppa og skoppa. Eftir klifur á ljónum og fleira var hafin mikil leit að næsta Starbucks svo að unglingarnir (og við) gætum nú fengið okkur eins og einn Frappó áður en héldum áfram að kanna borgina. Tower Bridge, London Tower svæðið og St. Catherine harbour, er geggjað svæði þar sem matur og menning fær að mætast, við skruppum þangað á Medevial Banquet og það var geggjað, við máttum berja í borðin, öskra “WENCH!!” ef okkur vantaði eitthvað og borða með höndunum, það myndaðist skemmtileg stemning í þessm dimma og illa lýsta kjallara, en leikarar og söngvarar sýningarinnar voru frábær og fengu áhorfendur að taka að hluta til þátt í því sem var að gerast. Maturinn var ágætur og svo diskó í lokin, þar sem hægt var að taka sporið.
Madame Tussauds… Rándýrt, þröngt, og geggjað skemmtilegt, það eru nánast engar líkur á því að við fáum einhverntímann að hitta þetta fólk í lifanda lífi, þá er bara að láta vaxfígúrurnar duga. Við skruppum líka í rándýrt teboð til hennar hátignar, og fengum að sjálfsögðu myndir með henni, og fleira kóngafólki auðvitað ásamt fullt af fína og fræga fólkinu. Hjá okkur eftir daginn stóð uppúr 4-D Bíóið í vaxmyndasafninu, það var mjög áhugaverð lífsreynsla. Á leiðinni út er gengið fram hjá Star Wars fígúrum og þar var auðvitað stoppað í dágóða stund til að skoða og taka myndir með þeim.
Einnig skruppum við í London eye sem er rosalega hátt, og rosalega hægt, útsýnið efst í London eye er algjörlega magnað, okkur fannst frábær upplifun að fara þarna upp og sjá yfir alla London. Held það sé best að láta myndirnar tala sínu máli.

Flott útsýnið í London Eye
Við getum svo sannarlega mælt með því að fara til London með fjölskylduna, alltaf nóg að gera og ef þér leiðist að þá þarftu bara að taka undergroundið og þá finnur þú þér eitthvað að gera.
Þið getið skoðað fleiri myndir frá London hérna
Þú getur skoðað söguna okkar og fylgst með okkur á samfélagsmiðlum
Instagram: https://www.instagram.com/icetravellers_com (@IceTravellers_com)
Facebook: https://www.facebook.com/IceTravellers
Snapchat: AsaLauf og hermity
Blog: https://icetravellers.com
Kv. IceTravellers